Næring aldraðra

Góð og fjölbreytt næring er mikilvæg á síðari árum ævinnar.
Algengt er að orkuþörf einstaklinga minnki með árunum þar sem hreyfigeta verður minni og ákveðin vöðvarýrnun á sér stað.
Þrátt fyrir að orkuþörf sé minni, þá þarfnast líkaminn enn allra vítamína, steinefna og trefja líkt og áður.

Fjölbreytt fæða í minni skömmtum er því lykillinn að góðri næringu á efri árum.

Þegar við eldumst er algengt að hægist á meltingunni og þá er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að gæta þess að borða fæðu sem stuðlar að góðri meltingu.  Trefjar spila þar stórt hlutverk og hægt er að finna þær í grófri kornvöru, grænmeti og ávöxtum.  Trefjar og vatn haldast í hendur og næg vatnsneysla stuðlar að góðri meltingu. 

Þónokkrar fæðutegundir  sem eru góðar fyrir meltingarkerfið og hjálpa til við að halda hægðum mjúkum eru t.d. sveskjur og aðrir þurrkaðir ávextir, sveskjusafi, möluð hörfræ, brauðsúpa, maltöl. 

Að sama skapi er næg vökvainntaka mjög mikilvæg.  Fullorðnir einstaklingar drekka oft ekki nægilegt magn af vökva á hverjum degi. Þetta getur tengst því að viðkomadi á e.t.v. orðið erfiðara með að hreyfa sig, þvagleki getur verið vandamál sem getur orðið til þess að fólk veigrar sér við að drekka mikið, auk þess sem þorstatilfining minnkar eftir því sem við verðum eldri. Þetta allt getur haft mikil áhrif á meltinguna og valdið hægðatregðu. 

  

Vítamín geta verið hluti af daglegri rútínu ef einstaklingur hefur vanið sig á að taka slíkt.  Fjölvítamín, sem dæmi, er góður kostur fyrir einstaklinga sem af einhverjum ástæðum borða ekki nægilega fjölbreytta fæðu.
Einnig er lýsi eða D-vítamín afskaplega gott fyrir þá sem ekki borða mikinn feitan fisk eða drekka ekki D-vítamín bætta mjólk. 

Lystarleysi er vandamál sem margir aldraðir glíma við. Oft er engin ákveðin útskýring á lystarleysinu þrátt fyrir rannsóknir. 
Í slíkum tilvikum getur reynst vel að borða frekar litla skammta og litla aukabita oftar yfir daginn. Mikilvægt er að leggja ekki of mikinn mat á borð  í einu, því það getur oft aukið á lystarleysið, betra er að bjóða lítið og bjóða þá heldur ábót. 

 

Ef illa gengur fyrir einstakling að nærast geta næringardrykkir reynst vel. 
Til eru nokkrar tegundir af slíkum drykkjum og hver tegund hönnuð fyrir ákveðinn hóp með tilliti til næringarþarfar.
Mælt er með því að lesa vel á umbúðir og velja drykki sem innihalda öll næringarefni (prótein, kolvetni og fitu) sem líkaminn þarfnast og eru háir í hitaeiningafjölda. 
Þessir drykkir fást í mörgum bragðtegundum og ættu því flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 
Drykkirnir fást í flestum apótekum og hjá heildsölum, Hægt er að kaupa næringadrykki  sem innhalda öll lífsnauðsynleg vítamín og steinefni. 

Næringardrykkir fást t.d. hjá 

Naeringogheilsa.is

Icepharma

Fastus

 

Þess ber að geta að sé læknisfræðileg ástæða (sjúkdómur eða slys) fyrir slæmu næringarástandi einstaklings, er möguleiki á því að fá næringardrykki niðurgreidda frá Sjúkratryggingum Íslands, eyðublað er að finna undir næring og sérfæði og einnig hér .

Bæklingur um næringu fullorðinna