Hvíldar -og endurhæfingarinnlagnir 

Nokkur hjúkrunarheimili á landinu bjóða upp á hvíldarinnlagnir og/eða endurhæfingarinnlagnir fyrir aldraða.

Hvort tveggja getur nýst einstaklingum sem enn búa heima en þurfa orðið aukna aðstoð.  Í slíkum innlögnum er gott tækifæri fyrir fagfólk að meta stöðuna og jafnvel þjálfa upp færni og auka sjálfsbjargargetuna.

Í hverju heilbrigðisumdæmi starfar færni -og heilsumatsnefnd sem vinnur úr umsóknum þess umdæmis, metur umsóknir og ráðstafar rýmum í samræmi við lög og reglur nefndanna.   

Hvíldarinnlagnir eru í grunninn hugsaðar sem hvíld bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og ekki síður fyrir þá sem næst honum standa. Aðstandendur aldraðra sem hafa orðið meiri þörf fyrir aðstoð og innlit, geta verið undir miklu álagi, sér í lagi í þeim tilfellum hvar fáir bera hitann og þungann af umönnun ástvina sinna, til dæmis í fámennum fjölskyldum. Í þeim tilvikum getur hvíldarinnlögn verið kærkominn kostur fyrir alla fjölskylduna.
 

Flestar hvíldarinnlagnir eru áætlaðar í nokkra daga í senn og að hámarki í 8 vikur.

 Í hvíldarinnlögnum fær fólk endurhæfingu, þjálfun og mat á ástandi. 
Markmið hvíldarinnlagna er ávallt að styrkja fólk til að geta haldið áfram að búa á eigin heimili. 
Umsókn um hvíldarinnlögn þarf eins og áður sagði, að fara í gegn um heilsu-og færnimatsnefnd.

Hér er að finna umsókn á vef embættis landlæknis. 

Endurhæfingarinnlagnir eru af svolítið öðrum toga.

Þær henta vel einstaklingum sem búa heima, en hefur hrakað tímabundið og þurft að leggjast inn á spítala og jafnvel þurft að fara í aðgerð.
Þar fær fólk tímabundna umönnun og endurhæfingu sem miðar að því að einstaklingurinn geti farið heim aftur og  sé þá jafn sjálfbjarga og fyrir veikindin. 
Endurhæfingarinnlagnir geta varað frá nokkrum dögum og að hámarki í 8 vikur. 

Umsókn um endurhæfingarinnlögn þarf að fara í gegn um heilsu-og færnimatsnefnd.

Hér er að finna umsókn á vef embætti landlæknis. 

Gæta þarf þess að umsókn um hvíldar-og eða endurhæfingarinnlögn berist heilsu-og færnimatsnefnd í réttu umdæmi, þ.e. í heimaumdæmi umsækjanda. 

Hér má finna upplýsingar um nefndirnar eftir umdæmum. 

Eftirtalin hjúkrunarheimili bjóða upp á rými til endurhæfingar -og/eða hvíldarinnlagna: 

Sunnuhlíð, Kópavogur

Hrafnista, Hafnarfjörður og Reykjavík

Mörk,Reykjavík

Sundabúð, Vopnafjörður

Eir, Reykjavík

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Keflavík